Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Wikileaks verða á ráðstefnu FSFÍ 1. desember

Talsmenn Wikileaks eru á leiðinni til landsins vegna ráðstefnu Félags um stafrænt frelsi á Íslandi sem verður 1. desember næstkomandi.

Ráðstefnan er öllum opin og er frítt inn. Skráning er á vefsíðu félagsins, fsfi.is.

Við bendum fólki einnig á að Wikileaks verður til umræðu í þættinum Silfur Egils nú á sunnudaginn.

 

Um Wikileaks:

WikiLeaks er verkefni sem stefnir að því að gera hverjum sem er kleift að leka trúnaðargögnum til almennings. Á síðustu tveimur árum hefur verkefnið lekið yfir milljón skjölum sem ekki voru ætluð til almennrar birtingar - þar á meðal glærusýningu af stjórnarfundi Kaupþings skömmu fyrir bankahrun, sem olli talsverðu fjaðrafoki í hérlendum fjölmiðlum. Meðal annarra markverðra skjala sem WikiLeaks hefur birt má nefna meðlimaskrá British National Party (í tvígang), skýrslu um mengunarslys á Fílabeinsströndinni sem unnin var fyrir Trafigura, uppköst að ACTA-sáttmálanum, og fleira í þeim dúr.

 


mbl.is 11. september mínútu fyrir mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisyfirlýsing netheima

Þegar Bill Clinton samþykkti og skrifaði undir sérstök fjarskiptalög (Telecommunications Act) þann 8. febrúar 1996 olli það miklu uppþoti í holdheimum en þó sérstaklega í netheimum, sem stækkuðu ört með fjölgun notenda lýðnetsins. Í hinum líkamlega heimi ýttu afleiðingar laganna undir markaðsyfirráð fjölmiðlafyrirtækja en í netheimum reyndu lögin að brjóta niður málfrelsi á netinu. John Perry Barlow, kröftugur baráttumaður málfrelsis í netheimum, skrifaði sama dag svar netheima við þessum lögum sem ríkisstjórn eins lands setur á landamæralaus samskipti. Til þess að undirstrika valdleysi ríkisstjórna yfir holdlausum hugsunum gaf hann svarinu nafnið Sjálfstæðisyfirlýsing netheima. John Perry Barlow er einn af fyrirlesurum ráðstefnu um stafrænt frelsi sem verður haldin 5. júlí næstkomandi og í tilefni af því gefur FSFÍ út Sjálfstæðisyfirlýsingu netheima á íslensku í fyrsta skipti.


Sjálfstæðisyfirlýsing netheima

Ríkisstjórnir iðnaðarheimsins, þið þreyttu risar holds og stáls, ég kem úr netheimum, nýja heimili hugans. Fyrir hönd framtíðarinnar, bið ég ykkur úr fortíðinni um að láta okkur í friði. Þið eruð ekki velkomin á meðal oss. Þið hafið engin yfirráð á okkar söfnunarstað.

Við höfum enga kosna stjórn og munum líklega ekki efna til kosninga. Því felur orð mitt einungis í sér það vald sem frelsið sjálft hefur. Ég lýsi því hér með yfir að hnattræna samfélagsrýmdin sem við byggjum sé náttúrulega sjálfstætt undan því einræði sem þið sækist eftir að íþyngja okkur með. Þið hafið hvorki siðferðislegan rétt til þess að ráða yfir okkur né búið yfir þvingunaraðferðum sem við höfum ástæðu til þess að lúta.

Hið réttláta vald sem ríkisstjórnir búa yfir er afkvæmi samþykkis þegna ríkisins. Þið hafið hvorki sóst eftir né fengið í hendurnar samþykki okkar. Ykkur hefur ekki verið boðið til okkar. Þið þekkið okkur ekki og þið þekkið ekki okkar heim. Netheimar liggja ekki innan ykkar lögsögu. Bygging landamæra að netheimum eru ekki eins og hver önnur opinber byggingarframkvæmd. Sú framkvæmd er ekki á ykkar valdi. Netheimar eru náttúrulegt afl sem stækkar í gegnum sameiginlegar aðgerðir okkar.

Þið hafið hvorki tekið þátt í samkundu stórfenglegra samræðna okkar né skapað auð markaðssvæða okkar. Þið þekkið ekki menningu okkar, siðfræði okkar eða hinar óskráðu reglur sem nú þegar halda uppi meiri reglu í samfélagi okkar en ykkar afskiptasemi gæti gert.

Þið haldið því fram að vandræði séu meðal oss sem þarfnist úrlausna. Þið notið þessa skálduðu staðhæfingu sem afsökun til þess að ráðast inn í okkar umdæmi. Mörg af þessum vandamálum eru ekki til staðar. Þar sem raunverulegar deilur og óréttlæti eiga sér stað munum við leysa úr þeim málum á okkar máta. Við erum að skrifa okkar eigin samfélagssáttmála. Sú stjórn sem í því felst mun rísa á okkar skilmálum, ekki ykkar. Okkar heimur er öðruvísi.

Netheimar eru samansafn færsla, vensla og hugsunarinnar sjálfrar, allt tengt í flóðbylgju samskiptavefs okkar. Okkar er heimur allsstaðar og hvergi, en þar fyrirfinnast engir líkamar.

Við erum að skapa heim þar sem allir geta safnast saman án forréttinda og fordóma í garð kynþátta, auðs, hervalds eða þjóðernis.

Við erum að skapa heim þar sem hver sem er, hvar sem er getur tjáð hugsanir sínar, hversu sérstæðar sem þær geta verið, án þess að hræðast þvingun til þagnar eða samræmis.

Ykkar lagalegu hugtök um eignir, tjáningar, auðkenni, hreyfingar og samhengi ná ekki til okkar. Þau eru byggð á efni. Hér er ekkert efni að finna.

Auðkenni okkar hafa engan líkama þannig að ólíkt ykkur getum við ekki náð fram reglu með líkamlegum þvingunum. Okkar trú er að siðfræði, upplýstur sjálfmyndaður áhugi og almenningsheill geti af sér og upphefji okkar eigin stjórn. Okkar auðkennum getur verið dreift yfir mörg af ykkar lögsagnarumdæmum. Einu lögin sem okkar samsetta menning myndi almennt samþykkja er Gullna reglan. Við vonum að við getum byggt okkar eigin sérstöku lausnir á þeim grunni. Við getum aftur á móti ekki tekið við þeim lausnum sem þið reynið að þvinga á okkur.

Í Bandaríkjunum hefur ríkisstjórn þeirra í dag sett á lög, lög um umbætur á fjarskiptum sem hafna þeirra eigin stjórnarskrá og móðgar drauma Jefferson, Washington, Mill, Madison, DeToqueville og Brandeis. Þessir draumar verða nú að fæðast að nýju í okkur.

Þið eruð dauðhrædd við ykkar eigin börn vegna þess að þau eru innfæddir íbúar heims þar sem þið munuð alltaf vera innflytjendur. Það er vegna þess að þið hræðist þau sem að þið treystið á embættismannalið með sama ábyrgðarhlutverk foreldra og þið eruð of huglaus til að takast á við. Í okkar heimi eru öll tilfinningaverðmæti og tjáningar mannkyns, frá niðrandi orðum til engillíkra setninga, hluti af einni heild, hinu hnattræna samtali stafrænna bita. Við getum ekki aðskilið loft sem kæfir, frá lofti þar sem vængir blaka.

Í Kína, Þýskalandi, Frakklandi, Rússlandi, Singapore, Ítalíu og Bandaríkjunum reynið þið að hindra frelsi eins og smitsjúkdóm með því að reisa varnarturna við framlínu netheima. Þessir turnar gæti tafið frelsissmit í stutta stund en þeir munu ekki virka í heimi sem mun innan tíðar vera umturnað af stafrænum miðlum.

Ykkar síþverrandi upplýsingaiðnaður mun viðhalda sjálfum sér með lagatillögum, í Bandaríkjunum og á öðrum stöðum, sem krefjast þess að málið sjálft sé þeirra eign um allan heim. Þessi lög munu lýsa því yfir að hugmyndir séu enn ein iðnaðarvaran, ekki merkilegri en hrájárn. Í okkar heimi, hefur allt það sem mannshugurinn getur skapað möguleika á því að vera endurskapað og dreift óendanlega án þess að gjald sé tekið fyrir. Hnattræn miðlun hugsunar þarf ekki lengur á verksmiðjum ykkar að halda.

Þessar síauknu grimmu og nýlendulegu aðgerðir setja okkur í sömu stöðu og fyrri elskendur frelsis og sjálfstæðra ákvarðanna sem þurftu að hafna valdi fjarlægra, óupplýstra afla. Við verðum að lýsa því yfir að sýndarsjálf okkar séu ónæm fyrir yfirráðum ykkar, jafnvel þó við höldum áfram að samþykkja vald ykkar yfir líkömum okkar. Við munum dreifa okkur um alla plánetuna svo að enginn geti handsamað hugsanir okkar.

Við munum skapa heimsmenningu hugans í netheimum. Megi netheimar hafa meiri manngæsku og sanngirni en heimurinn sem ykkar ríkisstjórnir hafa skapað.

Davos, Sviss
8. febrúar 1996

Takk fyrir frelsið

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. júní 2008)

Frelsi Íslendinga jókst til muna um miðjan mars þökk sé íslensku ríkisstjórninni og verkefnisstjórnar um rafræna stjórnsýslu í forsætisráðuneytinu. Það er óumflýjanleg staðreynd að hugbúnaður og tölvur eru mikilvægur þáttur í daglegu lífi allra Íslendinga og þegar stefna stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað var samþykkt af ríkisstjórninni 11. mars síðastliðinn var tekið stærra skref í átt að betri framtíð en margan grunar.

Frjáls hugbúnaður gefur notendum hugbúnaðarins frelsið til þess að nota hugbúnaðinn á þann hátt sem notandinn sjálfur kýs, frelsið til þess að kynna sér hugbúnaðinn og aðlaga hann að sínum þörfum, frelsið til þess að dreifa hugbúnaðinum og þar með hjálpa náunganum og frelsið til þess að bæta hugbúnaðinn og dreifa breytingunum til samfélagsins svo að allir njóti góðs af þeim. Opinn hugbúnaður á rætur sínar að rekja til frjáls hugbúnaðar en hugsjón opins hugbúnaðar fjallar frekar um gæði og öryggi hugbúnaðarins frekar en frelsi notenda. Það má því segja að stefnan, sem hvetur opinbera aðila til þess að beita sér fyrir notkun frjáls og opins hugbúnaðar, ýtir undir notkun gæðahugbúnaðar sem veitir öllum notendum frelsi í daglegu lífi, án þess að vera á valdi örfárra stórfyrirtækja. Stefnan opnar einnig markaðinn fyrir íslensk fyrirtæki með því að auka samstarfs- og samkeppnismöguleika og þar af leiðandi þátttöku á markaðinum.

Því miður verður ekki litið framhjá því að fram að þessu hefur meirihluti Íslendinga ekki staðið nægilega vel vörð um sitt stafræna frelsi og í raun sett eigin tölvur og hugbúnað í hendur óþekktra aðila. Ekki er víst hvort um ræðir áhuga- eða þekkingarleysi en stefna stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað mun án efa eiga stóran hlut í vitundarvakningu Íslendinga hvað varðar frelsi og óhæði í meðhöndlun stafrænna upplýsinga.

Í stuttu máli felur stefnan í sér það að opinberir aðilar skoði frjálsan hugbúnað til jafns við séreignarhugbúnað og geri sem hagkvæmust kaup. Opinberir aðilar skulu einnig reyna eftir fremsta megni að nota hugbúnað sem byggir á opnum stöðlum og forðast það að verða of háðir einstaka
fyrirtækjum. Hugbúnaður sem er smíðaður og fjármagnaður af opinberum aðilum verður endurnýtanlegur og frjáls auk þess sem að nemendur íslenskra menntastofnanna fá að kynnast frjálsum hugbúnaði og þannig átta sig á mikilvægi frelsis í stafrænum heimi. Svipaðar stefnur hafa nú þegar verið samþykktar í öðrum löndum, eins og til dæmis Bretlandi, Króatíu og Suður-Afríku. Fleiri lönd, eins og Holland og Sviss, virðast ætla að bætast í hópinn sem gerir Ísland að leiðandi afli frekar en eftirbát í að tryggja betri framtíð og stafrænt frelsi.

Stjórn Félags um stafrænt frelsi á Íslandi (FSFÍ) vill koma á framfæri hamingjuóskum til allra Íslendinga og sérstökum þökkum til íslensku ríkisstjórnarinnar, þá sérstaklega verkefnisstjórnar um rafræna stjórnsýslu fyrir þá vinnu sem hefur verið lögð í stefnumótunina. Stefna stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað markar tímamót fyrir upplýsingasamfélagið á Íslandi því nú má segja að hagur almennings og frelsi tölvunotenda hafi verið sett í forgang. Meðhöndlun stafrænna upplýsinga er óaðskiljanlegur hluti daglegs lífs allra landsmanna og aukið stafrænt frelsi leiðir því af sér aukið frelsi í daglegu lífi.

Íslenska ríkisstjórnin á hrós skilið fyrir þetta mikilvæga skref í áttina að betra Íslandi og stjórn FSFÍ er þakklát öllum þeim sem komu að mótun þessarar stefnu. Stjórn FSFÍ er viss um að þetta stóra stökk sem nú hefur verið er til marks um aukið frelsi og aukna meðvitund landsmanna. Það er mikilvægt að hafa í huga að stafrænt frelsi nær ekki eingöngu til hugbúnaðar heldur allra upplýsinga sem hægt er að miðla stafrænt sem og stafræna miðilsins sjálfs. Stjórn FSFÍ þakkar fyrir frelsið og vonar að þessu markverða starfi sem stuðlar að betra stafrænu Íslandi verði haldið áfram af bæði opinberum aðilum og einkaaðilum.


Við vitum hver þú ert

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. júní 2008)

 

Ímyndaðu þér að það séu til þúsundir mynda af þér í gagnagrunni – myndir af þér á Laugarveginum á búðarrápi, á Hlemmi að bíða eftir strætó, myndir af þér á leið í vinnu, myndir af þér að fá þér að borða með vinum þínum á veitingahúsi, myndir af þér sitjandi í umferðateppu að pirrast yfir veðrinu.

 

Ímyndaðu þér að þær myndir séu tengdar við nákvæmar upplýsingar um hvar þú býrð, hvað þú heitir, upplýsingar um börnin þín. Fingraförin þín og hvaða flugvelli þú hefur farið um á ævinni. Upplýsingar um allar umferðarsektir sem þú hefur fengið, um öll námskeið sem þú hefur setið.

 

Ímyndaðu þér að þetta allsherjareftirlit sé notað til að búa til tölfræðilegt yfirlit yfir hvar þú ert líklegastur til að vera á hverri stundu. Að frávik frá spánni séu álitin vera grunsamleg, að lögreglan rannsaki málið.

 

Hættu nú að ímynda þér þetta, því þetta er raunveruleiki sem milljónir manna búa við.

 

Í dag eru um hálf milljón öryggismyndavéla sem fylgjast með öllu sem allir gera í London, í nafni öryggis. Í New York líka. Chicago. Í borginni Shenzhen í Kína eru myndavélarnar tvær milljónir talsins. Gagnagrunnarnir geyma nákvæmar upplýsingar um allt sem fólk gerir opinberlega - með því að slá inn nafn getur tölvan framkallað allar upplýsingarnar á nokkrum sekúndum.

 

Þeir sem vilja auka eftirlit með öllum vilja meina að þetta sé gert til að tryggja öryggi okkar. Þeir segja að bara glæpamennirnir þurfi að hafa áhyggjur. En hversu langt er hægt að ganga á þessum rökum?

 

Síðan 2001 hafa þessi rök verið notuð út um allan heim til að réttlæta ótrúlega skerðingu á ferðafrelsi einstaklinga milli landa, óréttmætar handtökur og njósnir. "Við erum að berjast við hryðjuverk," segja forsprakkarnir og glotta meðan saklausu fólki er haldið án dóms og laga fyrir að hafa ekki uppfyllt kröfur skrifræðisins. Fyrir að voga sér að hlýða ekki yfirvöldum.

 

Valdhafar eru mjög hrifnir af því að tala um mælanlegan árangur, en hvar er mældi árangurinn af þessu framtaki? Hversu mikið af glæpum er búið að upplýsa með hverri myndavél í London, og hversu oft er búið að skerða persónufrelsi fólks með því sama? Hversu margir hryðjuverkamenn hafa verið stöðvaðir á síðustu sjö árum, og ef þeir eru þá einhverjir þá hvers vegna hafa þeir ekki verið dregnir fyrir dómi?

 

Í stuttu máli: Getum við treyst valdhöfum fyrir svona ítarlegum upplýsingum um allt fólk?

 

Nú er gerð krafa um að allir sem ferðast milli landa hafi meðferðis rafræn skilríki – þykkt plastspjald fremst í vegabréfinu – sem innihalda upplýsingar sem auðkenna þá, svo sem nafn, kyn, hæð, augnlit, og fleira. Þessi rafrænu skilríki eru þannig gerð að þau svara fyrirspurnum um lífupplýsinar á ákveðnum útvarpstíðnum, þegar bylgjurnar lenda á vegabréfinu hleðst upp spenna innan þess og svo geislar það frá sér þínum persónuupplýsingum.

 

Flestir ferðamenn hafa vegabréfið alltaf á sér þegar þeir ferðast. Gömul og góð regla. En hversu skynsamlegt er það að þessir tveir eiginleikar séu til staðar á sama tíma?

 

Hægt er að smíða tæki sem nota mætti til að lesa þessar rafrænu upplýsingar úr vegabréfi fólks úr margra metra fjarlægð. Þær öryggisráðstafanir sem hafa verið gerðar á vegabréfunum eru litlar og ómerkilegar, auðvelt er að sneiða hjá þeim. Óprúttnir aðilar gætu setið á kaffihúsum og skotið á ferðamenn, lesið nöfn þeirra, ríkisfang og heimilisfang, og notað þær upplýsingar til að vinna sér traust þeirra.

 

Ímyndaðu þér að kreditkortanúmerinu þínu eða sé stolið af manninum á næsta borði. 

 

Í Ensku er til orð - panopticon. Alveg sama hvert þú ferð, þá sjá þeir þig. Í heimi þar sem tiltekinn hópur getur séð allt sem þú gerir ert þú ekki frjáls.

 

Þetta er ekki beinlínis fangelsi – þetta er bara sæmileg nálgun.

 

Verndun persónuupplýsinga er atriði sem skiptir sífellt meira máli á tímum heimsvæðingar. Persónuþjófnaður er óalgengur hér á landi en er verulegt vandamál víða erlendis – fólk sankar að sér persónuupplýsingum um einstaklinga og villir á sér heimildir. Víða erlendis eru kennitölur álitnar vera leyndarmál, og fyrir vikið hefur margur glatað bankainnistæðu sinni, ellilífeyri og jafnvel húsi bara á því að kennitala þeirra komist í hendur varmenna.

 

Íslendingar hafa fundið gott ráð við þessu. Með því að líta á kennitölur sem almennar upplýsingar eru fæstir tilbúnir til að líta á það að fólk þekki kennitölu sína sem auðkenningu. Margir muna kennitölur maka sinna, barna sinna og foreldra. Sumir muna kennitölur vina sinna. Þessar upplýsingar eru ekki einar og sér nægar til að taka peninga út af bankabók.

 

Aukin stafræn samskipti á öllum hliðum samfélagsins kalla á aukna meðvitund um verndun persónuupplýsinga og aukinn skilning almennings á því hvaða auðkennisþættir eru áreiðanlegir og hverjir ekki.

 

Félag um stafrænt frelsi á Íslandi hefur fullan hug á að reyna að gegna þessu upplýsingarhlutverki, því stafræn meðferð persónuupplýsinga eru ekki slæm í eðli sínu, en hún krefst virðingar og mikillar þekkingar svo hvorki frelsi né fjárhagi einstaklinga stafi hætta af. Félagið stendur fyrir ráðstefnu um stafrænt frelsi þann 5. júlí næstkomandi. Nánar á vefsíðu okkar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband