Við vitum hver þú ert

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. júní 2008)

 

Ímyndaðu þér að það séu til þúsundir mynda af þér í gagnagrunni – myndir af þér á Laugarveginum á búðarrápi, á Hlemmi að bíða eftir strætó, myndir af þér á leið í vinnu, myndir af þér að fá þér að borða með vinum þínum á veitingahúsi, myndir af þér sitjandi í umferðateppu að pirrast yfir veðrinu.

 

Ímyndaðu þér að þær myndir séu tengdar við nákvæmar upplýsingar um hvar þú býrð, hvað þú heitir, upplýsingar um börnin þín. Fingraförin þín og hvaða flugvelli þú hefur farið um á ævinni. Upplýsingar um allar umferðarsektir sem þú hefur fengið, um öll námskeið sem þú hefur setið.

 

Ímyndaðu þér að þetta allsherjareftirlit sé notað til að búa til tölfræðilegt yfirlit yfir hvar þú ert líklegastur til að vera á hverri stundu. Að frávik frá spánni séu álitin vera grunsamleg, að lögreglan rannsaki málið.

 

Hættu nú að ímynda þér þetta, því þetta er raunveruleiki sem milljónir manna búa við.

 

Í dag eru um hálf milljón öryggismyndavéla sem fylgjast með öllu sem allir gera í London, í nafni öryggis. Í New York líka. Chicago. Í borginni Shenzhen í Kína eru myndavélarnar tvær milljónir talsins. Gagnagrunnarnir geyma nákvæmar upplýsingar um allt sem fólk gerir opinberlega - með því að slá inn nafn getur tölvan framkallað allar upplýsingarnar á nokkrum sekúndum.

 

Þeir sem vilja auka eftirlit með öllum vilja meina að þetta sé gert til að tryggja öryggi okkar. Þeir segja að bara glæpamennirnir þurfi að hafa áhyggjur. En hversu langt er hægt að ganga á þessum rökum?

 

Síðan 2001 hafa þessi rök verið notuð út um allan heim til að réttlæta ótrúlega skerðingu á ferðafrelsi einstaklinga milli landa, óréttmætar handtökur og njósnir. "Við erum að berjast við hryðjuverk," segja forsprakkarnir og glotta meðan saklausu fólki er haldið án dóms og laga fyrir að hafa ekki uppfyllt kröfur skrifræðisins. Fyrir að voga sér að hlýða ekki yfirvöldum.

 

Valdhafar eru mjög hrifnir af því að tala um mælanlegan árangur, en hvar er mældi árangurinn af þessu framtaki? Hversu mikið af glæpum er búið að upplýsa með hverri myndavél í London, og hversu oft er búið að skerða persónufrelsi fólks með því sama? Hversu margir hryðjuverkamenn hafa verið stöðvaðir á síðustu sjö árum, og ef þeir eru þá einhverjir þá hvers vegna hafa þeir ekki verið dregnir fyrir dómi?

 

Í stuttu máli: Getum við treyst valdhöfum fyrir svona ítarlegum upplýsingum um allt fólk?

 

Nú er gerð krafa um að allir sem ferðast milli landa hafi meðferðis rafræn skilríki – þykkt plastspjald fremst í vegabréfinu – sem innihalda upplýsingar sem auðkenna þá, svo sem nafn, kyn, hæð, augnlit, og fleira. Þessi rafrænu skilríki eru þannig gerð að þau svara fyrirspurnum um lífupplýsinar á ákveðnum útvarpstíðnum, þegar bylgjurnar lenda á vegabréfinu hleðst upp spenna innan þess og svo geislar það frá sér þínum persónuupplýsingum.

 

Flestir ferðamenn hafa vegabréfið alltaf á sér þegar þeir ferðast. Gömul og góð regla. En hversu skynsamlegt er það að þessir tveir eiginleikar séu til staðar á sama tíma?

 

Hægt er að smíða tæki sem nota mætti til að lesa þessar rafrænu upplýsingar úr vegabréfi fólks úr margra metra fjarlægð. Þær öryggisráðstafanir sem hafa verið gerðar á vegabréfunum eru litlar og ómerkilegar, auðvelt er að sneiða hjá þeim. Óprúttnir aðilar gætu setið á kaffihúsum og skotið á ferðamenn, lesið nöfn þeirra, ríkisfang og heimilisfang, og notað þær upplýsingar til að vinna sér traust þeirra.

 

Ímyndaðu þér að kreditkortanúmerinu þínu eða sé stolið af manninum á næsta borði. 

 

Í Ensku er til orð - panopticon. Alveg sama hvert þú ferð, þá sjá þeir þig. Í heimi þar sem tiltekinn hópur getur séð allt sem þú gerir ert þú ekki frjáls.

 

Þetta er ekki beinlínis fangelsi – þetta er bara sæmileg nálgun.

 

Verndun persónuupplýsinga er atriði sem skiptir sífellt meira máli á tímum heimsvæðingar. Persónuþjófnaður er óalgengur hér á landi en er verulegt vandamál víða erlendis – fólk sankar að sér persónuupplýsingum um einstaklinga og villir á sér heimildir. Víða erlendis eru kennitölur álitnar vera leyndarmál, og fyrir vikið hefur margur glatað bankainnistæðu sinni, ellilífeyri og jafnvel húsi bara á því að kennitala þeirra komist í hendur varmenna.

 

Íslendingar hafa fundið gott ráð við þessu. Með því að líta á kennitölur sem almennar upplýsingar eru fæstir tilbúnir til að líta á það að fólk þekki kennitölu sína sem auðkenningu. Margir muna kennitölur maka sinna, barna sinna og foreldra. Sumir muna kennitölur vina sinna. Þessar upplýsingar eru ekki einar og sér nægar til að taka peninga út af bankabók.

 

Aukin stafræn samskipti á öllum hliðum samfélagsins kalla á aukna meðvitund um verndun persónuupplýsinga og aukinn skilning almennings á því hvaða auðkennisþættir eru áreiðanlegir og hverjir ekki.

 

Félag um stafrænt frelsi á Íslandi hefur fullan hug á að reyna að gegna þessu upplýsingarhlutverki, því stafræn meðferð persónuupplýsinga eru ekki slæm í eðli sínu, en hún krefst virðingar og mikillar þekkingar svo hvorki frelsi né fjárhagi einstaklinga stafi hætta af. Félagið stendur fyrir ráðstefnu um stafrænt frelsi þann 5. júlí næstkomandi. Nánar á vefsíðu okkar.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Nei, við getum ekki treyst valdhöfum fyrir öllum þessum upplýsingum.

Ég verð á þessari ráðstefnu í anda, þótt ég verði staddur annarsstaðar. Gangi ykkur vel með hana.

Vésteinn Valgarðsson, 23.6.2008 kl. 04:27

2 Smámynd: Félag um stafrænt frelsi á Íslandi

Takk fyrir stuðninginn Vésteinn, vonandi geturðu tekið þátt líkamlega í næstu ráðstefnu!

Félag um stafrænt frelsi á Íslandi, 23.6.2008 kl. 15:00

3 Smámynd: Alfreð Símonarson

Frábært framtak hjá þér, ég hef bloggað mikið um valdníðslu stjórnvalda, þá sérstaklega þann fámenna hóp sem má kalla skuggastjórnvöld. Fólk er að vakna við þessar staðreyndir en 95% jarðabúa hafa ekki hugmynd að það er búið að ræna öllum ríkisstjórnum heims og verið að koma á alræðisher frá sameinuðu þjóðunum, sem við eigum að halda að séu góðu gaurarnir.

Ég hef mikinn áhuga á þessari ráðstefnu og ef ykkur vantar ræðumann þá get ég tekið það að mér og kynnt ykkur fyrir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér. Ætla að skoða heimasíðu ykkar.

Kær kveðja og lifi byltingin

Alli

Alfreð Símonarson, 23.6.2008 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband