23.6.2008 | 15:41
Takk fyrir frelsið
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. júní 2008)
Frelsi Íslendinga jókst til muna um miðjan mars þökk sé íslensku ríkisstjórninni og verkefnisstjórnar um rafræna stjórnsýslu í forsætisráðuneytinu. Það er óumflýjanleg staðreynd að hugbúnaður og tölvur eru mikilvægur þáttur í daglegu lífi allra Íslendinga og þegar stefna stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað var samþykkt af ríkisstjórninni 11. mars síðastliðinn var tekið stærra skref í átt að betri framtíð en margan grunar.
Frjáls hugbúnaður gefur notendum hugbúnaðarins frelsið til þess að nota hugbúnaðinn á þann hátt sem notandinn sjálfur kýs, frelsið til þess að kynna sér hugbúnaðinn og aðlaga hann að sínum þörfum, frelsið til þess að dreifa hugbúnaðinum og þar með hjálpa náunganum og frelsið til þess að bæta hugbúnaðinn og dreifa breytingunum til samfélagsins svo að allir njóti góðs af þeim. Opinn hugbúnaður á rætur sínar að rekja til frjáls hugbúnaðar en hugsjón opins hugbúnaðar fjallar frekar um gæði og öryggi hugbúnaðarins frekar en frelsi notenda. Það má því segja að stefnan, sem hvetur opinbera aðila til þess að beita sér fyrir notkun frjáls og opins hugbúnaðar, ýtir undir notkun gæðahugbúnaðar sem veitir öllum notendum frelsi í daglegu lífi, án þess að vera á valdi örfárra stórfyrirtækja. Stefnan opnar einnig markaðinn fyrir íslensk fyrirtæki með því að auka samstarfs- og samkeppnismöguleika og þar af leiðandi þátttöku á markaðinum.
Því miður verður ekki litið framhjá því að fram að þessu hefur meirihluti Íslendinga ekki staðið nægilega vel vörð um sitt stafræna frelsi og í raun sett eigin tölvur og hugbúnað í hendur óþekktra aðila. Ekki er víst hvort um ræðir áhuga- eða þekkingarleysi en stefna stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað mun án efa eiga stóran hlut í vitundarvakningu Íslendinga hvað varðar frelsi og óhæði í meðhöndlun stafrænna upplýsinga.
Í stuttu máli felur stefnan í sér það að opinberir aðilar skoði frjálsan hugbúnað til jafns við séreignarhugbúnað og geri sem hagkvæmust kaup. Opinberir aðilar skulu einnig reyna eftir fremsta megni að nota hugbúnað sem byggir á opnum stöðlum og forðast það að verða of háðir einstaka
fyrirtækjum. Hugbúnaður sem er smíðaður og fjármagnaður af opinberum aðilum verður endurnýtanlegur og frjáls auk þess sem að nemendur íslenskra menntastofnanna fá að kynnast frjálsum hugbúnaði og þannig átta sig á mikilvægi frelsis í stafrænum heimi. Svipaðar stefnur hafa nú þegar verið samþykktar í öðrum löndum, eins og til dæmis Bretlandi, Króatíu og Suður-Afríku. Fleiri lönd, eins og Holland og Sviss, virðast ætla að bætast í hópinn sem gerir Ísland að leiðandi afli frekar en eftirbát í að tryggja betri framtíð og stafrænt frelsi.
Stjórn Félags um stafrænt frelsi á Íslandi (FSFÍ) vill koma á framfæri hamingjuóskum til allra Íslendinga og sérstökum þökkum til íslensku ríkisstjórnarinnar, þá sérstaklega verkefnisstjórnar um rafræna stjórnsýslu fyrir þá vinnu sem hefur verið lögð í stefnumótunina. Stefna stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað markar tímamót fyrir upplýsingasamfélagið á Íslandi því nú má segja að hagur almennings og frelsi tölvunotenda hafi verið sett í forgang. Meðhöndlun stafrænna upplýsinga er óaðskiljanlegur hluti daglegs lífs allra landsmanna og aukið stafrænt frelsi leiðir því af sér aukið frelsi í daglegu lífi.
Íslenska ríkisstjórnin á hrós skilið fyrir þetta mikilvæga skref í áttina að betra Íslandi og stjórn FSFÍ er þakklát öllum þeim sem komu að mótun þessarar stefnu. Stjórn FSFÍ er viss um að þetta stóra stökk sem nú hefur verið er til marks um aukið frelsi og aukna meðvitund landsmanna. Það er mikilvægt að hafa í huga að stafrænt frelsi nær ekki eingöngu til hugbúnaðar heldur allra upplýsinga sem hægt er að miðla stafrænt sem og stafræna miðilsins sjálfs. Stjórn FSFÍ þakkar fyrir frelsið og vonar að þessu markverða starfi sem stuðlar að betra stafrænu Íslandi verði haldið áfram af bæði opinberum aðilum og einkaaðilum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.